Hæstiréttur sýknaði í fyrrverandi stjórn Glitnis, þau Þorstein M. Jónsson, Björn Inga Sveinsson, Hauk Guðjónsson, Jón Sigurðsson, Katrínu Pétursdóttur, Pétur Guðmarsson og Skarphéðin Berg Steinarsson af kröfum Vilhjálms Bjarnasonar.

Forsaga málsins er sú að Vilhjálmur hafði kært stjórn Glitnis fyrir kaup Glitnis á bréfum í eigu Bjarna Ármannssonar, fyrrverandi forstjóra Glitnis við starfslok Bjarna. Vilhjálmur vann málið í héraðsdóm og var stjórnin dæmd til að greiða Vilhjálmi um 1,9 milljón króna ásamt vöxtum og dráttarvöxtum. Hæstiréttur sneri í dag þeim dómi við og sýknar fyrrverandi stjórnarmeðlimi.

Hæstiréttur segir í dómsúrskurði að þegar stjórnarmenn í Glitni hafi gert samninga um kaupa félagsins á eigin hlutum af einkahlutafélögum Bjarna Ármannssonar, þann 30. apríl 2007, hafi stjórnin haft til þess umboð í ljósi samþykktar aðalfundar sama árs sem hafði veitt stjórninni til slíkra ráðstafana.

„Í heimildinni var tekið fram að félagið mætti ekki eignast meira en 10% af hlutafé sínu, svo og að kaupverð eigin hluta mætti lægst verða 10% lægra og hæst 10% hærra en gengi á hlutunum í Kauphöll Íslands hf. Í málinu hefur því ekki verið borið við að kaupin, sem hér um ræðir, hafi orðið til þess að Glitnir banki hf. hafi eignast hærra hlutfall af hlutafé sínu en hluthafafundur hafði ákveðið og mælt var fyrir um [...],“ segir í úrskurði Hæstaréttar.

„Með því að setja stjórn félagsins þær skorður að kaupverð eigin hluta mætti ekki víkja meira frá markaðsverði hlutanna í kauphöll en sem svaraði 10% á hverjum tíma, hvort heldur til lækkunar eða hækkunar, var jafnframt efnislega fullnægt þeim áskilnaði 3. mgr. sömu lagagreinar að tilgreina skuli í heimild hluthafafundar lægstu og hæstu fjárhæð, sem félag megi reiða fram í þessu skyni.“

Hæstiréttur segir að ekki verði fallist á að kröfu Vilhjálms að þessar ráðstafanir hafi falið í sér brot á jafnræðisreglu gagnvart honum, sem varðað geti skaðabótaskyldu áfrýjenda.

Sjá dóm hæstaréttar í heild sinni.