Hæstiréttur hefur vísað frá kæru Sigurðar Einarssonar, fyrrverandi stjórnarformanns Kaupþings, vegna alþjóðlegrar handtökuskipunar embættis sérstaks saksóknara á hendur honum vegna rannsóknar á meintum lögbrotum stjórnenda Kaupþings. Sigurður hefur verið eftirlýstur af alþjóðalögreglunni Interpol frá því 11. maí en hann hefur ekki viljað koma hingað til lands í skýrsutöku nema fá vilyrði fyrir því að hann verði ekki handtekinn. Hann hefur hins vegar viljað gefa skýrslu í Bretlandi þar sem hann býr.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins taldi embætti sérstaks saksóknara að ekki væri kæruheimild í lögunum og á það féllst Hæstiréttur.

Þá staðfesti Hæstiréttur farbannsúrskurð yfir Magnúsi Guðmundssyni, fyrrverandi forstjóra Kaupþings í Lúxemborg og Banque Havilland, en hann kærði farbannsúrskurðinn eftir að hann var látinn laust úr viku löngu gæsluvarðhaldi á Litla-Hrauni.

Hæstiréttur hefur enn ekki dæmt í kærumáli Hreiðars Más Sigurðssonar, fyrrverandi forstjóra Kaupþings, en hann kærði farbannsúrskurðinn til Hæstaréttar eftir að hafa verið látinn laus úr 12 daga gæsluvarðhaldi á Litla-Hrauni. Dómur Hæstaréttar í málinu fellur annaðhvort í dag eða á morgun, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.