Samkvæmt ársreikningi Nýherja fyrir árið 2004 voru tekjur félagsins 5.490,2 mkr en 4.569,3 mkr árið áður og jukust því um 20% á milli ára. Hagnaður Nýherja á árinu 2004 eftir skatta var 91,3 mkr samanborið við 70,6 mkr hagnað árið áður. Hagnaður samstæðunnar fyrir fjármagnsgjöld og afskriftir - EBITDA - nam 270,8 mkr en var 205,5 mkr árið áður. Hagnaður af rekstri Nýherja á fjórða ársfjórðungi nam 95,2 mkr eftir skatta samanborið við 16,9 mkr hagnað í sama ársfjórðungi árið áður.

Hlutfall EBITDA af veltu var 4,9% á árinu en var 4,5% árið áður. Launakostnaður hækkaði um 17% fyrir samstæðuna milli ára. Meðalfjöldi stöðugilda var 264. Annar rekstrarkostnaður og afskriftir hækka um 26% milli ára, m.a. vegna kaupa á ráðgjafafyrirtækinu ParX ehf. Veltufé frá rekstri var 230,9 mkr á árinu 2004 en 175,9 mkr árið áður. Gengishagnaður nam 7,9 mkr samanborið við 7,8 mkr gengistap árið áður.

Góður ársfjórðungur

Hagnaður af rekstri Nýherja á fjórða ársfjórðungi nam 95,2 mkr eftir skatta samanborið við 16,9 mkr hagnað í sama ársfjórðungi árið áður. Hagnaður félagsins fyrir fjármagnsgjöld og afskriftir í ársfjórðungnum - EBITDA - var 138,0 mkr borið saman við 42,5 mkr í sama fjórðungi árið áður. Rekstrartekjur fjórðungsins námu 1.821,5 mkr en voru 1.310,2 mkr í sama ársfjórðungi árið áður og hækkuðu því um 39%.