Eftir úrskurð Alþjóðaviðskiptaráðsins í Bandaríkjunum verður tævanski farsímaframleiðandinn HTC að taka úr sölu í Bandaríkjunum ákveðnar símtegundir, en ráðið komst að því að HTC hefði brotið gegn einkaleyfi tæknirisans Apple. Um er að ræða síma sem keyra á Android stýrikerfinu, nánar tiltekið þeim útgáfum Android sem bera númerin 1.6 – 2.2. Úrskurðurinn hefur hins vegar ekki áhrif á nýjustu símtækin frá HTC, sem ætlað er að komi út á næsta ári. Þau keyra á Android útgáfu númer 4.0.

Einkaleyfið snýr að svokallaðri „Data Tapping“ lausn, sem Apple hefur einkaleyfi á. Gerir hún það að verkum að þegar notandi símans fær símanúmer sent í SMS-skilaboði, getur hann smellt á númerið og hringt beint í það, svo dæmi sé tekið.

Apple hafði kært HTC fyrir brot gegn tíu einkaleyfum og segja talsmenn HTC að þeir líti á niðurstöðuna sem sigur, því fyrirtækið hafi aðeins talist hafa brotið gegn einu þeirra. Símarnir sem um ræðir verða teknir úr umferð, sem fyrr segir, þar til HTC hefur tekið lausnina úr símunum. Næst á dagskrá er að ná sama notagildi úr símanum án þess að brjóta gegn einkaleyfi Apple.

Athuga ber að brotið liggur ekki í símunum frá HTC, heldur í Android stýrikerfinu sjálfu. Því er ekki ólíklegt að Apple kæri aðra Android-símaframleiðendur eins og Samsung fyrir sambærileg brot gegn einkaleyfinu.