„Eitthvað þarf að gera til að koma lágmarkstrausti á gjaldmiðilinn.“ sagði Beat Sigenthaler, sérfræðingur hjá T.D. Securities Ltd. í London, í samtali við Bloomberg fréttaveituna í gær.

Hann sagði engan vera tilbúinn að halda krónum nema í ítrustu neyð og að algjörlega hefði verið skrúfað fyrir viðskipti með krónuna í kjölfar yfirtöku Fjármálaeftirlitsins á Kaupþingi í gær.

Gjaldeyrissali Nordea, stærsta banka Norðurlanda, tók í sama streng við fréttaveituna. Hann sagði að raunverulega væri ómögulegt að versla með krónur í þessu ástandi þar sem engir bankar væru lengur til staðar til þess að ganga frá viðskiptunum.

Samkvæmt þessum aðilium höfðu því engin hefðbundin gjaldeyrisviðskipti átt sér stað í gær en að sögn Nordea höfðu lokaviðskipti þeirra með krónur miðað við gengið 340 krónur fyrir hverja evru.

Ekkert traust

Eftir að bresk yfirvöld höfðu líst því yfir að Íslendingar myndu hlaupa frá skuldbindingum sínum erlendis má segja að upp hafi komið neyðarástand. Allt traust á Íslandi hvarf eins og dögg fyrir sólu, lán Íslendinga voru voru gjaldfelld og enginn vildi stunda gjaldeyrisviðskipti við Íslendinga.

Það dylst eflaust engum alvarleiki þess að traust erlendra aðila á íslenskum bönkunum sé hverfandi. Það að algjörlega sé hætt að stunda gjaldeyrisviðskipti við þá hefur afleiðingar langt út fyrir bankakerfið.

_______________________________________

Nánar er fjallað um  málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .