Heimsmarkaðsverð á áli hefur ekki verið lægra í fimm ár vegna minnkandi eftirspurnar frá bílaiðnaðinum. Þá var fullyrt í frétt Financial Times í gær að Rio Tinto Alcan hafi hætt við áform um að auka framleiðsluna í Straumsvík.

Áfram er búist við að versnandi markaðsaðstæðum að því er fram kemur á vefsíðu WorldNews. Á hrávörumarkaði í London,(LME) var staðgreiðsluverð á áli skráð á 1.423 dollara tonnið við opnun markaðar í morgun, en þetta er lægsta verð síðan í október 2003.

Í október dró úr pöntunum á áli um 24% samkvæmt upplýsingum US Aluminium Association. Er það einkum skýrt með samdrætti í pöntunum frá bílaiðnaðinum sem orðið hefur fyrir umtalsverðum samdrætti. Einnig er bent á veikingu fasteignamarkaðarins, en ál kemur víða við sögu í húsbyggingum. Þá hefur hægt á vexti iðnframleiðslu í Kína um 5,4% á milli ára. Hefur ástandið þar ekki verið lakara síðan 1999.

Álrisarnir Rusal og Rio Tinto Alcan (sem á álverið í Straumsvík), hefur ekki tekist að stöðva verðfall áli þrátt fyrir samdrátt í framleiðslu. Rusal hefur gefið það út að dregið yrði úr framleiðslu þeirra í Rússlandi um 4% eða sem nemur 180.000 tonnum.

Þá var fullyrt í frétt Financial Times í gær að Rio Tinto Alcan hafi hætt við áform um að auka framleiðsluna í Straumsvík úr 185.000 tonnum á ári í 225.000 tonn.

Sem kunnugt er hefur verið unnið að endurnýjun á búnaði álversins og stækkun á núverandi verksmiðjulóð. Fréttablaðið birti forsíðufrétt á dögunum um að hætt hafi verið við stækkunaráform og vitnaði þar í símtal eins forráðamanns fyrirtækisins við Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra. Össur bar þessa frétt hins vegar til baka m.a. í sölum Alþingis.