Bandaríska heimilsvöruverslunarkeðjan Pier 1 hefur ákveðið að fresta sölu á fyrirtækinu en Jákúp Jacobsen, eigandi Rúmfatalagersins og fjárfestingafélagsins Lagerinn, átti í viðræðum um hugsanlega yfirtöku á félaginu.

Lagerinn á um 10% hlut í Pier 1 og haft hefur verið eftir Marvin Giouard, fyrrverandi forstjóra Pier 1, að fyrirtækið væri nálægt því að ná samningum við "stóran hluthafa" um kaup á félaginu. Hins vegar sendi Pier 1 frá sér fréttatilkynningu í vikunni og greindi frá því að hætt hefði verið við söluna og það er því ljóst að Jákúp mun ekki taka yfir félagið á næstunni.

Girouard hefur ákveðið að láta af störfum sem forstjóri Pier 1 eftir 32 ár. Sérfræðingar telja að veruleg þröf sé á viðsnúningi og nýrri stefnumörkun í félaginu, sem farið hafi halloka fyrir keppinautum á undanförnum mánuðum.

Jákúp flaggaði 9,9% hlut sínum í Pier 1 í febrúar sem mun hafa verið verðlagt á að meðaltali 10,83 Bandaríkjadali á hlut, samkvæmt fréttaskýringu Dow Jones fréttastofunnar. Lokagengi bréfa Pier 1 daginn áður en Jákúp flaggaði í félaginu var hins vegar 10,94 dalir á hlut. Jákúp hefur ekkert látið hafa eftir sér um frekari kaup í félaginu eftir að forstjóri Pier 1 gaf út tilkynningu um að hann hyggðist draga sig í hlé.

Pier 1 Imports rekur yfir 1.200 verslanir með um tveggja milljarða dala veltu. Greiningaraðilar á Wall Street hafa haft uppi vaxandi gagnrýni á félagið, sem ekki hefur skilað hagnaði í meira en ár og staðan versnar enn. Segja þeir skýringuna líklega harðari samkeppni frá aðilum sem bjóði meira spennandi vöruframboð en Pier 1. Búist hefur verið við að sölutölur septembermánaðar sýni 6- 7% samdrátt frá sama tíma í fyrra.

Jákúb hefur verið að styrkja sína stöðu í Kanada og í Bandaríkjunum á liðnum misserum. Palli Limited, félag í eigu Jákúps eða Lagersins, keypti á síðasta ári hlut í bandarísku verslunarkeðjunni Linens 'N Things, sem skilaði Lagernum umtalsverðum gengishagnaði. Þá samþykkti Palli Limited í mars að kaupa bresku og írsku einingar Pier 1 fyrir 15 milljónir Bandaríkjadala. Hafa því margir búist við að yfirtaka á Pier 1 í Bandaríkjunum yrði næsta skrefið. Ekki náðist í Jákúp Jacobsen.