Til stóð að starfsmenn vöru- og dreifingarstöðva Iceland-keðjunnar myndu leggja niður störf á morgun í tvo sólarhringa, en nú hefur verið hætt við það til þess að samningaviðræður geti hafist að nýju, segir í frétt PA Business.

Iceland verslunarkeðjan er í eigu Baugs, en vöru- og dreifingarmiðstöðvarnar eru reknar af DHL, en ekki Iceland.

Verkalýðsfélag starfsmannana, Transport and General Workers Union, hafði áður gripið til aðgerða og gengu starfsmenn DHL út úr vinnu þann 8. desember í heilan sólarhring.

Gengið verður til samninga þann 29. desember, en það eru 115 ökumenn og 250 lagerstarfsmenn sem málið snýst um.

Í yfirlýsingu Iceland var sagt að ráðstafanir hafi verið gerðar ef til þess kæmi að starfsmennirnir leggðu aftur niður vinnu og að það myndi ekki hafa áhrif á rekstur fyrirtækisins.