Hætta er á að hjól atvinnulífisins verði eingöngu rekin á pólitískum forsendum með fyrirhuguðu eignarhaldsfélagið ríkisins yfir þeim félögum sem ríkið mun þurfa að taka yfir vegna rekstarerfiðleika.

Þetta sagði Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins á morgunþingi um efnahagsmál sem haldinn var í Nýja Kaupþingi í morgun.

Hannes sagði rétt að erlendir kröfuhafar bankanna fengju þá afhenta. Þeir gætu á framhaldinu tekið ákvarðanir varðandi starfssemi þeirra en Hannes sagði þá mun líklegri til að taka hagkvæmari ákvarðanir en hið opinbera.

Þá sagði Hannes að hugmyndir um eignarhaldsfélag á vegum hins opinbera hefðu verið myndaðar án samráðs við atvinnulífið, enda hefði komið á daginn að flest hagsmunastamtök atvinnulífsins væru á móti frumvarpi um málið.

Hannes sagði að með opinberu eignarhaldsfélagi væri ekkert tillit tekið til samkeppnismála, eignarhaldsþátta og hagkvæmra rekstarmöguleika. Félagið, og fyrirtækin sem undir það heyrðu, yrðu rekin á pólitískum forsendum en ekki þeim sem hefðu hagsmuna að gæta við rekstur þeirra.