„Staðan er einfaldlega þannig að bankakerfið er að þorna upp af gjaldeyri og það er raunveruleg áhætta að landið verði olíulaust,“ sagði Hermann Guðmundsson, forstjóri N1, stærsta olíufélags landsins, þegar Viðskiptablaðið náði tali af honum í Noregi í gær.

Hermann sagði að rekstur N1 væri með ágætum, félagið hefði sterka eiginfjárstöðu og mikið lausafé en það þyrfti að geta keypt dollara til að kaupa olíu.

„Það liggur ekki fyrir að bankakerfið geti skaffað það magn af dollurum sem við þurfum til þess að flytja inn olíu. Þetta er því raunveruleg áhætta í dag og það er alveg klárt að það er frumskylda Seðlabankans að tryggja að það sé flæði fjármagns í umferð og þar með erlendra gjaldmiðla. Ég er staddur í Noregi og norski seðlabankinn er nýbúinn að þurfa að spýta inn stórum upphæðum í bandarískum dollurum vegna þess að kerfið var að þorna upp í Noregi líka. Að mínu mati er þetta ástand á Íslandi algerlega óþolandi og leggur auðvitað margar atvinnugreinar í rúst ef þetta varir mikið lengur.“

Hermann sagði að venjuleg birgðastaða hjá N1 dygði í 30 til 40 daga og það ætti við um birgðir félagsins núna.“