Gengi hlutabréfa deCODE, móðurfélags Íslenskrar erfðagreiningar, hefur fallið mikið á bandaríska Nasdaq-hlutabréfamarkaðnum á síðustu dögum. Á mánudaginn lækkuðu bréfin um 19% og um hvorki meira né minna en tæp 28% á þriðjudag. Gengi bréfanna er nú 50 sent og hefur aldrei verið lægra. Gengi bréfa félagsins fór undir einn dollar 10. september sl. en slíkt hið sama gerðist um miðjan júní á þessu ári og var undir einum dollar í tvær vikur þá. Lægst fóru bréfin þá í 0,83 dollara en tóku að hækka upp frá því. Frá því að bréfin fóru niður fyrir einn dollar í síðustu viku hafa þau haldið áfram að lækka.

Þegar verð bréfa er komið undir einn dollar á Nasdaq-hlutabréfamarkaðnum kallast þau „penny stock“. Ákveðnar reglur gilda um slík bréf á markaðnum vestra og þær eru í stuttu máli að ef verð bréfa er undir einum dollar 30 daga í röð, hefur viðkomandi fyrirtæki 180 daga til að koma bréfunum yfir þau mörk. Ef það tekst ekki, standa félögin frammi fyrir afskráningu.

_______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .