Hólmavík þykir einhver sá hamingjusamasti staður á landinu, enda eru svokallaðir Hamingjudagar þar orðin árlegur viðburður. Þar sem Ísland var nýverið útnefnt hamingjusamasta land í heimi, hljóta Hólmvíkingar að vera hamingjusamasta fólk í heimi, segir David Ibison í frétt Financial Times.

En hvað skyldi þessu hamingjusamasta fólki í heimi finnast um áhrif hækkandi verbólgu, rýrnun krónunnar og síhækkandi fasteignaverðs? Sveitarstjóri Hólmavíkur, Ásdís Leifsdóttir, sagði í viðtali við Financial Times að fólkið í kauptúninu hafi tekið eftir því, en skipti það litlu máli.

Þessi viðbrögð segir Ibison lýsandi fyrir meint hættuástand á Íslandi. En eins og flestir vita spáðu margir efnahagshruni hér á landi fyrir aðeins fjórum mánuðum. Hrakspárnar kölluðu svo á samanburð við ástandið í Tælandi árið 1997 og Tyrklandi árið 2001, en það var Danske Bank sem kom með þann samanburð.

Frederick Mishkin frá Columbia háskólanum, sem var ráðinn af Viðskiptaráði Íslands til að meta stöðu efnahagsins, sagði að samanburðurinn við Tæland og Tyrkland hafi ekki aðeins verið órökstuddur, heldur einnig stórkostlega villandi.

Nú þegar stöðugleiki hefur komist á krónuna og íslenskan hlutabréfamarkað, virðist hættan á efnahagshruni á Íslandi vera alþjóðlegum greiningaraðilum jafn óviðkomandi og sveitarstjóranum í Hólmavík, segir Ibison.