Alþjóðlegir stefnusmiðir verða að grípa skjótt til aðgerða til þess að koma í veg fyrir “enn sársaukafyllri” lánsfjárkreppu. Þeir verða að vera reiðubúnir til þess að nota almannafé til að bjarga bönkum ef markaðsaðstæður versna. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um ástandið á fjármálamörkuðum.

Í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) um ástand á alþjóðafjármálamörkuðum sem kom út í gær er ekki máluð fögur mynd af ástandinu. Fram kemur að ógnir við fjármálastöðugleika heimsins hafi „vaxið mikið“ frá því í október í fyrra, en þá kom síðasta mat sjóðsins út.

IMF segir að hugsanlega geti heildarafskriftir vegna ástandsins farið í allt að einni billjón Bandaríkjadala -- og að andvirði þeirra geti jafnvel orðið meiri þegar allt er yfirstaðið. Sjóðurinn telur að tap einskorðist ekki nú við fjármálagjörninga sem tengjast undirmálslánum heldur gæti þess á mörkuðum með eignatryggða skuldabréfavafninga sem tengjast neytenda- og fyrirtækjalánum auk útlána til atvinnuhúsnæðis.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .