Fjórum stjórnendum Landsbankans hefur verið stefnt fyrir dóm í Lúxemborg vegna meðhöndlunar dótturfélags bankans í Lúxemborg á fjármunum viðskiptavina Lex life eins og kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag.

Meðal viðskiptavina sjóðsins eru margir þekktir einstaklingar í Frakklandi og á Spáni. Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins er um að ræða á milli 300 og 400 viðskiptavini á Suður-Spáni og 200 til 300 viðskiptavini í Suður-Frakklandi. Við mörgum þessara einstaklinga blasir við verulegt tjón og jafnvel gjaldþrot. Fólkið hafði gert samning við bankann um veðsetningu á heimilum sínum með útgáfu sérstakra skuldabréfa.

Eigendurnir fengu 20% af andvirðinu til ráðstöfunar en afganginn tók bankinn til umsýslu með því fororði að það stæði undir afborgunum og vöxtum. Nú telja þessir einstaklingar að bankinn hafi brotið samninginn og fjárfest í skuldabréfum Landsbankans langt umfram heimildir eins og kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag. Skiptastjóri þrotabús Landsbankans í Lúxemborg hefur nú hafið innheimtuaðgerðir

Franskur lögmaður sem fæst við málið sagði í samtali við Viðskiptablaðið að  hann teldi skilanefnd Landsbankans ekki hafa brugðist rétt við. Hann taldi málið svo alvarlegt að það gæti orðið tilefni milliríkjadeilu milli Íslands og Frakklands. Það væri óhjákvæmilegt að kröfur á dótturfélag Landsbankans í Lúxemborg myndu enda hér á Íslandi einfaldlega vegna fjárstreymis frá dótturfélaginu í Lúxemborg hingað heim.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.