Eftir hrun bankanna hefur mörgum fundist sem illa gangi að koma hjólum efnahagslífsins af stað. Georg Lúðvíksson, framkvæmdastjóri fjármálahugbúnaðarfyrirtækisins Meniga, segir að sú staða sem hér er hafi ekki tafið fyrir framgangi Meniga. Þvert á móti hafi hrunið, og þær aðstæður sem það kallaði fram, hjálpað Meniga að vaxa og taka fyrstu skrefin. Hins vegar hafi verið hálf sorglegt, að mörgu leyti, að horfa upp á það hvernig málin hafi þróast eftir hrunið hér á landi.

„Mér finnst sorglegast hversu stór hluti af sköpunarkrafti þjóðarinnar er ekki að fara í uppbyggingu landsins. Auðvitað er fullkomlega eðlilegt að mikill tími hafi hér farið í uppgjör vegna bankahrunsins, en því miður held ég að mikil tækifæri og verðmæti hafi farið í súginn að óþörfu.

Samkeppnishæft atvinnulíf er eina leiðin útúr kreppunni og sem betur fer hefur samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs aukist mikið undanfarin 10-15 ár. Íslensku bankarnir voru t.d. að sumu leyti vel reknir bankar, þ.e. einstakir þættir í starfsemi þeirra voru að skapa miklar tekjur og skiluðu mikilli arðsemi. Því miður sýnist mér að margt af því sem hér hefur verið gert eftir hrun stuðli frekar að því að draga úr samkeppnishæfni en auka hana og að margir hafi óraunhæfar væntingar til ríkisins að leysa öll vandamálin.

M.a. vegna þessara þátta óttast ég að hér geti orðið óþarflega mikið bakslag. Til dæmis er almennt viðurkennt að eftir kreppuna miklu á fjórða áratug síðustu aldar voru settar reglur og lög sem gengu miklu lengra en þörf var á og það hefti efnahagslegan bata. Sú tilhneiging að vilja ekki gera neitt eins og það var áður er skiljanleg en getur verið hættuleg. Frekar þarf að reyna að greina á milli þess sem vel var gert og þess sem ekki var vel gert, horfa til framtíðar og gefa fólki færi á að læra af mistökunum,“  segir Georg.

Sjá ítarlegt viðtal við Georg í Viðskiptablaðinu.