*

sunnudagur, 1. ágúst 2021
Innlent 25. nóvember 2011 12:52

Huang Nubo fær ekki að kaupa Grímsstaði á Fjöllum

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra segir ekki mögulegt að leyfa jarðakaup auðmanns. Það hefði getað skapað fordæmi.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
Huang Nubo
Axel Jón Fjeldsted

„Það þótti ekki fært að verða við þessari beiðni. Stærðargráðan á landakaupunum var slík að fordæmið sem þarna hefði skapast við undanþágu frá lögum má heita að þau hefðu verið numin á brott,“ segir Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra sem í dag hafnaði ósk kínverska auðmannsins Huang Nubo um leyfi til að kaupa jörðina Grímsstaði á Fjöllum. 

Ögmundur tilkynnti ákvörðun ráðuneytisins á ríkisstjórnarfundi í dag.

Huang Nubo óskaði eftir því í sumar að kaupa jörðina, sem er 300 ferkílómetrar að stærð. Fjárfesting Nubo hér á landi auk kaupanna átti að felast í byggingu glæsihótels. Áætlað var að fjárfesting hans hér gæti numið 23 milljörðum króna. 

Auðmaðurinn var bjartsýnn á að fá græna ljósið hjá stjórnvöldum fyrir jarðakaupunum í samtali við kínverska fjölmiðilinn China Daily fyrir nokkrum dögum. 

Ögmundur segir niðurstöðuna liggja fyrir eftir mat sérfræðinga í innanríkisráðuneytinu. „Það var ekki heimild samkvæmt lögum að veita hana. Menn horfa til þess að einstaklingur er ekki að óska eftir henni heldur hlutafélag,“ segir Ögmundur og ítrekar að undanþága hefði getað skapað fordæmi sem aðrir erlendir fjárfestar hefðu getað vísað til.

Ákvörðun innanríkisráðuneytis um jarðakaupin