*

fimmtudagur, 9. apríl 2020
Erlent 19. janúar 2020 15:03

Huawei hræðir

Deilur vegna tæknimála gætu haldið góðu lífi í viðskiptastríði Bandaríkjanna og Kína.

Ritstjórn
epa

Þrátt fyrir að samkomulag milli Kína og Bandaríkjanna hafi náðst um vopnahlé í viðskiptastríði ríkjanna á miðvikudag, er ljóst að ágreiningur þeirra á sviði tæknimála mun halda áfram að verða þeirra helsta þrætuepli og halda áfram uppi spennu milli þeirra. Undanfarið hafa deilurnar helst snúið að kínverska símafyrirtækinu Huawei sem bæði framleiðir farsíma en einnig hin ýmsu nettæki auk þess að vera framleiðandi á fjarskiptakerfum.

Bæði þingmenn og þjóðaröryggisráðgjafar hafa varað við því að Huawei, og þar með stjórnvöld í Kína, geti njósnað um bandaríska ríkisborga með tækjum sínum sem fyrirtækið hefur þó vísað á bug. Í maí á síðasta ári endaði fyrirtækið á svörtum lista hjá Alríkisviðskiptastofnuninni sem átti að koma í veg fyrir starfsemi þess í Bandaríkjunum og að bandarísk fyrirtæki gætu átt í viðskiptum við það.

Sjá einnig: Vopnahlé í viðskiptastríði

18% tekjuvöxtur Huawei í 122 milljarða dollara á síðasta ári þykir aftur móti til marks um að aðgerðir stjórnvalda hafi haft lítil áhrif. Þá sérstaklega vegna þess að bandarísk fyrirtæki hafa fundið leiðir til þess að eiga áfram í viðskiptum við Huawei. Í síðustu viku óskaði þjóðaröryggisráð Bandaríkjanna eftir því við Alríkisviðskiptastofnunina að settar yrðu reglugerðir sem myndu hamla bandarískum tæknifyrirtækjum að selja vörur til Kína. Það myndi hins vegar hafa mikil áhrif á bandarísk fyrirtæki sem framleiða rafeindabúnað (e. semiconductor) en um 36% af tekjum þeirra komu frá Kína árið 2018 eða um 75 milljarðar dollara samkvæmt Wall Street Journal. Óttast fyrirtækin að bannið myndi einungis leiða til þess að kínverskir kaupendur myndu leita annað að sömu vöru.

Þá liggur einnig fyrir að uppbygging Huawei á 5G farsímakerfum er þyrnir í augum bandarískra stjórnvalda. Í byrjun vikunnar var Matt Pottinger, aðstoðarþjóðaröryggisráðgjafi forsetans, staddur í Bretlandi til að hvetja stjórnvöld til að koma í veg fyrir að Huawei og önnur kínversk fyrirtæki komi að uppbyggingu 5G í landinu. Þá má einnig minnast þess að Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, kom sérstaklega inn á Huawei þegar hann ávarpaði fjölmiðla fyrir utan Höfða í heimsókn sinni til Íslands síðastliðið haust. Til að takast á við Huawei hafa ákveðnir þingmenn jafnvel lagt það til að bandaríska ríkið niðurgreiði uppbyggingu bandarískra fyrirtækja á 5G kerfum, sérstaklega í ljósi niðurgreiðslna Kínverja til Huawei.

Stikkorð: Bandaríkin Kína Huawei Bandaríkin Kína