Franski tískurisinn Chanel beið lægri hlut fyrir fjarskiptafélaginu Huawei hjá Almenna dómstól Evrópusambandsins (ESB) í dag. Taldi tískufyrirtækið að vörumerki Huawei væri of líkt fræga CC vörumerkinu en Almenni dómstóllinn var á öðru máli. Reuters greinir frá.

Deilurnar ná aftur til ársins 2017 þegar Huawei sóttist eftir samþykki Hugverkastofu ESB fyrir vörumerki fyrir tölvuvélbúnað fjarskiptafélagsins. Vörumerkið er með tvo lóðrétta hálfhringi sem mætast hvor öðrum.

Chanel taldi merkið of líkt sínu fræga vörumerki sem er notað fyrir ilmvötn, snyrtivörur, skartgripi, og fatavörur. Vörumerkið inniheldur tvö C-stafi sem krækjast saman lárétt en þeir standa fyrir Coco Chanel, stofnanda Chanel tískuveldisins.

Árið 2019 hafnaði Hugverkastofan kröfu Chanel og sagði að það væru engin líkindi milli vörumerkjanna tveggja ásamt því að engar líkur væri á að þau myndu valda ruglingi í hugum almennings. Tískurisinn vísaði úrskurðinum til Almenna dómstóls ESB í Lúxemborg en hann sýknaði Huawei í dag. Dómstóllinn taldi að mikill sjónrænn munur væri á merkjunum tveimur.