*

föstudagur, 18. september 2020
Erlent 2. ágúst 2018 14:46

Huawei tekur fram úr Apple

Kínverski símaframleiðandinn Huawei seldi fleiri farsíma en Apple á síðasta ársfjórðungi og er nú kominn í 2. sæti á eftir Samsung.

Ritstjórn
Huawei er stærsti framleiðandi fjarskiptatækja í heiminum, að farsímum frátöldum.
epa

Á öðrum ársfjórðungi þessa árs tók kínverski fjarskiptatækjaframleiðandinn Huawei fram úr Apple í fjölda seldra farsíma, og er því kominn í 2. sætið á eftir tæknirisanum Samsung, sem tók fram úr Apple árið 2011.

Huawei seldi 54 milljónir síma á fjórðungnum, vel yfir þeim 41 milljónum sem Apple seldi, en langt undir 73 milljónum Samsung, sem er með 21% markaðshlutdeild, á meðan Huawei er með tæplega 16% og Apple um 12%.

Sölutölur Huawei, eins og annarra kínverskra framleiðanda, hafa verið að vaxa hratt undanfarið, á meðan tölur Samsung, Apple, og LG, sem vermdi 7. sætið árið 2017, hafa nánast staðið í stað. Huawei seldi 10% fleiri síma 2017 en 2016, en kínversku framleiðendurnir Oppo, Vivo, og Xiaomi seldu 30%, 36% og 56%, í þeirri röð.