*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 20. mars 2015 13:35

Húddararnir hagkvæmari í rekstri

Siggi danski eigandi umfangsmikillar flutningaútgerðar sem heitir einfaldlega Siggi danski ehf.

Guðjón Guðmundsson
Haraldur Guðjónsson

Sjö vörubílar eru í flota Sigurðar Hafsteinssonar, eða Sigga danska eins og hann er jafnan nefndur. Þar af eru fjórir „húddarar“ sem Siggi segir ódýrari í innkaupum, sparneytnari og mun þægilegri vinnutæki en frambyggða vörubíla. Hann segir þetta atvinnuleyndarmálið sitt og hann telur sig hafa samkeppnisforskot á félaga sína innan Vörubílastöðvarinnar Þróttar, sem allflestir gera út frambyggða vörubíla.

Tíu ára á þessu ári

Hver bílstjóri innan Þróttar á einn hlut í hlutafélaginu. Siggi er þannig einn af 52 hluthöfum í félaginu en Siggi danski ehf. er þó algjörlega aðskilinn rekstri Þróttar. Bílstjórarnir reka Þrótt í sameiningu en félagið á húsnæðið við Sævarhöfða þar sem er afgreiðsla, matsalur og verkstæði, og útisvæðið þar sem er rými fyrir stóran flota af vörubílum.

Siggi danski er fyrirtaks dæmi um einyrkja í vörubílaútgerð. Hann bjó um níu ára skeið í Danmörku þar sem hann ók trukkum en sneri aftur til fósturjarðarinnar árið 2005. Þá keypti hann gamlan, sex hjóla MAN mjólkurbíl, breytti honum og hóf að gera hann út. Rekstur hans verður því tíu ára á þessu ári. Árið 2007 eyðilagðist mjólkurbíllinn í árekstri og fékk Siggi þá nýjan MAN.

Einn á ári

„Ég keypti svo notaðan Scania haustið 2010 og upp frá því hefur bæst við einn bíll í flotann að meðaltali á hverju ári sem hefur liðið,“ segir Siggi.

Fyrsti húddbíllinn var af gerðinni Volvo sem Siggi keypti vorið 2012. Síðan hafa bæst við 3 aðrir, amerískir húddarar.

„Húddbílar eru betri kostur, ef þú spyrð mig, en ef þú spyrð félaga mína hérna á stöðinni þá hlæja þeir að mér. Ég er einn þeirra sem horfðu á kvikmyndina Conway mér til mikillar ánægju á sínum tíma og fannst þessir amerísku bílar virkilega „kúl“. Þegar ég fór að leita mér að bíl sá ég á netinu að verð á þessum bílum í Bandaríkjunum var hreint ekki svo afleitt. Margir réðu mér þó frá því að kaupa húddbíl en ég er þannig gerður að ég verð að reka mig á hlutina sjálfur.“

Nánar er spjallað við Sigga í Atvinnubílablaðinu, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.