Eldur nefnir að við svona órökréttar aðstæður, líkt og við horfum fram á í heiminum í dag, sé mikilvægt að stjórnmálamenn hugi að okkar hagsmunum. Alþjóðaorkumálastofnunin hafi til að mynda sagt fólk þurfa að minnka flugferðir og akstur. Hugsanlega þróist málin þannig að kaupa þurfi olíu til lengri tíma en hingað til hafa birgðir verið að flökta frá 3 vikum upp í 3 mánuði samkvæmt fyrirspurn sem var lagt fyrir Alþingi árið 2019. Þegar ástandið í heiminum sé ekki rökrétt sé þeim mun mikilvægara að hugað sé að okkar hagsmunum.

„Tökum dæmi, ef við berum ekki áburð á tún, þá lækkar framleiðni kjötframleiðslu um 30-50%. Sé ekki borið á tún í það minnsta annað til þriðja hvert ár þarf að fletta, plægja og sá aftur í túnið. Fái kýr ekki það kjarnfóður sem þær þurfa getur mjólkurframleiðslan minnkað frá 6.000-7.000 lítrum á ári niður undir 4.000 lítra á ári. En það má líka horfa á aðra þætti eins og stál og sement en nú er bið eftir þessum vörum, allt hefur þetta áhrif. Það er eflaust hagkvæmara að gera þetta annars staðar í heiminum en þegar órökréttar aðstæður koma upp þá viljum við vera með þetta á hreinu."

Að sögn Elds kemur fram í skýrslu um fæðuöryggi á Íslandi, sem unnin var fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið árið 2021, að 80-90%% af korni, áburði og fóðri sem flutt sé inn til Íslands komi frá Evrópusambandinu. Hins vegar segir hann nokkuð ljóst að hrávaran sé beintengd Rússlandi, Hvíta-Rússlandi og Úkraínu og hafi einungis stutta viðkomu í Evrópusambandinu þegar henni er pakkað þar.

„Íslensk fóðurfyrirtæki eru að kaupa af finnskum framleiðanda, en sá framleiðandi pakkar einungis vörunni sinni þar en fær hráefnin meðal annars frá Rússland, Hvíta-Rússlandi og Úkraínu."

Hrávara í öllu

Eldur leggur áherslu á að með nánast allt þá þurfi einhverja hrávöru, það sé hins vegar hægara sagt en gert að framleiða hana. „Fosfór er gott dæmi um hrávöru sem er okkur frekar framandi en er gríðarlega mikilvæg í áburð. Hvítrússar og Rússar eiga um 50% af allri fosfór framleiðslu í heiminum. Ef fosfór er ekki í áburði þá verður jarðvegurinn snauður af fosfóri og ekki jafn góður til landbúnaðar. Bústofninum er beitt á túnin sem þá neyta fosfórs en það endurnýjast ekki sjálfkrafa í jarðveginum heldur þarf að bera það á aftur."

Að sögn Elds fari hljóð og mynd fari ekki endilega saman í stefnumótun Vesturlanda. „Það eru ekki allir sem átta sig á því að til dæmis ál, nikkel og kopar eru meðal helstu málma sem við þurfum til að rafvæða heiminn. Sé raunverulegur vilji til þess að rafvæða heiminn og nýta það sem tæki gegn loftslagsbreytingum þá þurfum við líka að huga að þessu."
„Ég myndi vilja sjá ríkið gera áhættumat og velta upp þeirri spurningu hvort ríkið ætti að kaupa hrávöru sem eins konar tryggingu til að verja okkur gegn áföllum og hækkandi verðum sem hefur bein áhrif á verðlag á Íslandi.  Ég geri ráð fyrir því að Þjóðaröryggisráð og ríkistjórnin séu með skýrt plan þegar það kemur að nauðsynlegri hrávöru."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .