Innan Samtaka atvinnulífsins (SA) er nú mikið rætt um uppstokkun á samtökunum í heild sinni. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er jafnvel rætt um stofnun nýrra samtaka en rétt er að taka fram að allar slíkar hugmyndir eru enn á óformlegu viðræðustigi.

Sjö aðildarfélög eiga í dag aðild að SA og í mörgum tilvikum rekast hagsmunir félagsmanna þeirra á. Hluti af þessari hugmyndavinnu eru viðræður við Viðskiptaráð Íslands um einhvers konar sameiningu. Þannig er m.a. rætt um það að stofna sérstaka efnahagsstofu innan SA sem myndi taka við hlutverki Viðskiptaráðs. Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, vildi í samtali við Viðskiptablaðið lítið tjá sig um gang mála en staðfesti að innan samtakanna færi nú fram hugmyndavinna sem sneri að framangreindum þáttum.