Hugarafl fær jólakortastyrk Opinna kerfa í ár, en Opin kerfi hafa árlega styrkt gott málefni í stað þess að senda jólakort til viðskiptavina, segir í tilkynningu.

Hugarafl var stofnað í júní 2003 af fólki í bata, sem átt hefur við geðræna erfiðleika að stríða, og iðjuþjálfum með víðtæka reynslu af geðheilbrigðismálum.

Hópurinn starfar við miðstöðina Geðheilsa-eftirfylgd/iðjuþjálfun í Bolholti 4, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðis. Hópurinn starfar samkvæmt hugmyndafræði valdeflingar (empowerment) og öll vinna fer fram á jafningjagrundvelli.

Markmið Hugarafls er meðal annars að vinna að verkefnum sem geta bætt geðheilbrigðisþjónustu, skapað hlutverk og unnið gegn fordómum með sýnileika og stuðla að atvinnusköpun með því að þróa þjónustu út frá reynslu.

Styrkurinn er HP Compac fartölva og HP Photosmart prentari, sem mælist hraðvirkasti ljósmyndaprentari sem völ er á. ?Að hljóta styrk sem þennan er mikil hvatning til þess að halda áfram að varpa ljósi á þau mál sem við höfum lagt áherslu á í gegnum tíðina. Styrkurinn auðveldar starfið, gefur aukin tækifæri til að sinna útgáfustarfssemi, þýðingum, fræðslu og þróun heimasíðu,? segir Auður Axelsdóttir, iðjuþjálfi hjá Hugarafli.