Viðskipti með hugbúnað og þjónustu tengda honum hafa vaxið hratt á undanförnum árum samkvæmt samantekt í skýrslu Seðlabanka Íslands. Þar kemur m.a. fram að útflutningur hugbúnaðar hafi á árinu 2004 aukist um rúmar 526 milljónir króna frá fyrra ári eða um 15,6%. Einnig kemur þar fram að 9 fyrirtæki fluttu út hugbúnað og tölvuþjónustu fyrir meira en 100 milljónir króna hvert á síðasta ári.

Útflutningur hugbúnaðar nam á árinu 2004 tæpum 3.906 milljónum króna og jókst um rúmar 526 milljónir króna á föstu gengi2 frá fyrra ári eða um 15,6%. Fyrirtæki sem hafa hugbúnaðargerð og ráðgjöf sem aðalatvinnugrein stóðu undir 94% af útflutningnum samanborið við 92% árið 2003 og jókst útflutningur þeirra um 17% frá fyrra ári. Útflutningur fyrirtækja í öðrum atvinnugreinum á hugbúnaði og tölvuþjónustu dróst hins vegar saman um rúm 3%.

Útflutningur hefur aukist úr 31 milljón króna árið 1990 í 3.906 milljónir króna á síðasta ári. Frá árinu 2000 hefur útflutningurinn á föstu gengi aukist um tæplega 1,4 milljarða króna eða um tæp 53%. Hlutfall útflutningsins af heildarútflutningi vöru og þjónustu árið 2004 var rúmlega 1,2% sem er lítið eitt hærra hlutfall en árið 2003. Samsvarandi hlutfall árið 2000 var 1,0%.

Seðlabankinn segir nokkrum erfiðleikum bundið að ná utan um og mæla þessi viðskipti, að hluta til vegna þess hve hugbúnaður er flókin afurð. Hann getur ýmist verið sérhæfður samkvæmt pöntun einstakra viðskiptavina eða fjöldaframleidd afurð. Söluvaran getur verið frumútgáfa hugbúnaðar, leyfi til að nota viðkomandi hugbúnað eða leyfi til að endurframleiða hugbúnaðinn. Hugbúnaður er einnig oft seldur milli tengdra fyrirtækja, þannig að móðurfyrirtæki hannar hugbúnað og svo selja erlend dóttur- og hlutdeildarfélög hugbúnaðinn til endanlegra notenda. Afhendingarleiðir eru einnig margar og ólíkar allt frá hugbúnaði í neytendapakkningum til afhendingar í gegnum internetið.

Til að flækja málið enn er hugbúnaður oft hluti af annarri afurð s.s. vél eða vélbúnaði. Útflutningur á hugbúnaði sem er hluti af tækja- eða vélbúnaði telst til vöruútflutnings og þar sem hugbúnaðarkönnun Seðlabankans miðar því að mæla útflutning þjónustu nær könnun Seðlabankans ekki til slíkrar framleiðslu. Við úrvinnslu gagna kom í ljós að í einhverjum tilvikum hafði hugbúnaður sem er hluti af vélbúnaði verið talinn með í útflutningstölum fyrirtækjanna. Leiðrétta þurfti tölur aftur til ársins 1997 vegna þessa.