Nýverið ákváðu fimm ungir menn, nýútskrifaðir úr Háskólanum í Reykjavík, að stofna nýtt hugbúnaðarfyrirtæki. Fyrirtækið hlaut nafnið Brimir Software og stefna þeir félagar að því að aðstoða hin ýmsu fyrirtæki við það að hanna vefsíður og taka að sér tilfallandi verkefni tengt hugbúnaði, ásamt því að vinna að eigin vefsíðugerð til hliðar.

Þeir Jörundur Jörundsson, Árni Benedikt Árnason, Arnar Kári Ágústsson, Daníel Benediktsson og Jón Freysteinn Jónsson kynntust í HR og unnu saman lokaverkefni sitt. Jörundur, sem er skráður framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segir að eftir að þeir unnu lokaverkefnið saman vildu þeir halda samstarfinu áfram. „Við gátum reddað okkar fyrsta verkefni sem sjálfstæðir verktakar. Við vorum samt með hugmynd um að stofna beinagrind í kringum þetta svo að við gætum unnið saman og stofnað fyrirtæki í lok sumars.“

Þeir eru flestir á þrítugsaldri og telst það til tíðinda fyrir nýsköpunarumhverfi á Íslandi þegar svo ungir aðilar hefja rekstur á eigin hugbúnaðarfyrirtæki. Þeir stigu sín fyrstu skref þegar þeir tóku að sér að vinna kerfi fyrir tölvuleikjafyrirtækið Solid Clouds.Það var lokaverkefni þeirra í HR. „Það sem þetta gekk út á var að Solid Clouds voru að gera tölvuleik sem heitir Starbourne sem ætti að koma fljótlega út. Við vorum að hjálpa þeim að hanna svokallað „logging kerfi“. Það er kerfi sem skráir allar aðgerðir sem eiga sér stað í leiknum, allt sem gerist í leiknum bak við tjöldin. Í framhaldi á þessu byggðum við upp þjónustukerfi fyrir spilendur leiksins til að styðja við samskipti notenda,“ segir Jörundur.

Annað nafn yfir jötuninn Ými

Aðspurður um nafnið á fyrirtækinu segir Jörundur að það sé annað nafn jötunsins Ýmis. „Brimir er annað nafn yfir Ými, sem er aðaljötunninn í norrænni goðafræði. Við vildum hafa eitthvert gamalt nafn sem myndi vísa í goðafræðina. Við vorum að reyna eitthvað sem var ekki frátekið, og við vorum með einhver skilyrði. Okkur fannst það bara hljóma vel,“ tekur Jörundur fram.

Nýlega skrifuðu þeir félagar undir samstarfssamning við endurskoðendastofuna KPMG. Á fésbókarsíðu KPMG á Íslandi kemur meðal annars fram að enn bættist við í hóp kraftmikilla sprotafyrirtækja sem væru í samstarfi við þá.

Slembitölur og bingó til hliðar

„Áætlunin hjá fyrirtækinu er að taka að sér hin og þessi verkefni fyrir aðila, til dæmis að búa til vefsíður og annað. Við viljum líka vera með okkar eigin „gæluverkefni“ til hliðar. Okkur fannst til að mynda vanta fallega slembitölusíðu og við hönnuðum því til að mynda síðuna RandNumGen.com. Við vorum einnig að setja upp síðu sem heitir WeGotABingo.com, sem er annað dæmi. Við erum gífurlegir bingó áhugamenn og okkur fannst vanta fallega nútímalega lausn á því að prenta út bingóspjöld. Við gerðum meðal annars flokka fyrir bingóorð. Það er hægt að velja flokka og þar á meðal eru til þemu á borð við Justin Bieber og Taylor Swift. Þetta eru síður sem okkur fannst vanta og langaði að gera,“ segir Jörundur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .