Sprotafyrirtækið DTE var stofnað árið 2013 af þeim Sveini Hinriki Guðmundssyni, sem er fyrrverandi framkvæmdastjóri félagsins og núverandi tæknistjóri, og Karli Ágústi Matthíassyni, núverandi framkvæmdastjóra. Undanfarin ár hefur fyrirtækið unnið að þróun lausnar til þess að efnagreina ál í fljótandi formi og gefa niðurstöður í rauntíma. Annars vegar er um að ræða rafhlöðudrifinn, færanlegan greiningarbúnað og hins vegar alsjálfvirkan, staðbundinn búnað.

Sveinn Hinrik og Karl Ágúst unnu báðir hjá HRV, fyrirtæki í eigu Mannvits og Verkíss, þar sem þeir þjónustuðu áliðnaðinn og voru þá með fasta viðveru hjá Norðurál. Það var þar sem Sveinn Hinrik fékk hugmyndina að því að þróa lausnina. Hann fór í kjölfarið að skoða mögulegar aðferðir og árið 2013 stofnuðu þeir Karl Ágúst fyrirtækið, en Norðurál tók vel í hugmyndina strax í upphafi.

„Þrátt fyrir að markmiðið væri mjög háleitt og að það væri búið að reyna þetta í tugi ára, jafnvel stórir aðilar, ákváðu þeir að gefa okkur séns."

Fyrstu árin fóru að mestu í tilraunir, en fyrsti vísir að búnaðinum leit dagsins ljós árið 2016, fimm árum eftir að hugmyndin kviknaði. Búnaðurinn er núna í prófunum, bæði hjá Norðurál og Rio Tinto, en DTE vinnur nú einnig að þróun hugbúnaðarlausnar um upplýsingarnar sem efnagreinirinn aflar.

„Stefnan er að halda utan um gögnin í skýjalausn og hjálpa álfyrirtækjunum við að besta ferlin sín og nýta gögnin til spágreininga, meðal annars með gervigreind. Þetta er eitthvað sem gæti skipt álfyrirtækin heilmiklu máli." Sveinn segir viðtökurnar við vörum DTE hafa verið mjög góðar. „Við vonumst til þess að afhenda fyrstu tækin innan fárra mánaða. Það eru ansi margir áhugasamir og það gæti alveg farið svo að það verði erfitt að anna eftirspurn, sem er mjög jákvætt vandamál. Þannig að hjá DTE eru allir kátir og glaðir - og spenntir fyrir framtíðinni."

Nánar er fjallað um málið í tímariti Frjálsrar verslunar sem var að koma út. Hægt er að gerast áskrifandi hér eða kaupa blaðið hér .