Sprotafyrirtækið Transmit ehf. hefur gert samning við bresku auglýsingastofuna Target-Live um notkun á BrandRegard, hugbúnaði sem Transmit hefur þróað. Í fréttatikynningu kemur fram að BrandRegard sé hugbúnaður sem ætlaður sé til umsjónar á auglýsingaefni fyrirtækja og að hann skili auknum afköstum og aukins aðgengis og endurnýtingar á efni.

Haft er eftir Geir Freyssyni, framkvæmdastjóra Transmit að með BrandRegard geti Target-Live boðið viðskiptavinum sínum upp á betri og hraðari þjónustu. „Target-Live vilja að viðskiptavinir sínir geti nálgast allar auglýsingar, plaköt, sjónvarpsauglýsingar, lógó og slíkt á örskotsstundu gegnum vefinn í stað þess að auglýsingastofan þurfi ítrekað að senda þeim efnið í tölvupósti eða brenna það á diska og senda það með hefðbundnum pósti. Með Brand Regard er slíkt hægðarleikur. Þessi samningur er mikil viðurkenning á hugbúnaðinum okkar en þessi markaður gerir miklar kröfur," segir Geir.