Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið HugurAx hefur þróað hugbúnaðarlausn fyrir vöruhús sem byggir á Dynamics AX viðskiptalausninni frá Microsoft. Íslenska lausnin þykir mjög snjöll og vekur eftirtekt stórfyrirtækja úti í heimi.

HugurAx innleiðir nú OWAS vöruhúsakerfi sitt hjá stórfyrirtækinu Navitrans í Kólumbíu í samvinnu við hugbúnaðarfyrirtækið MDO  Consultores s.a.

Skammstöfunin OWAS stendur fyrir On-Line Warehousing Automation System eða Vöruhúsakerfi sem vinnur á rauntímagögnum. Samanstendur það af Dynamics AX hluta frá Microsoft og hugbúnaði HugarAx, en hlutarnir tveir vinna saman í rauntíma. Meðal notenda kerfisins hér heima eru Nói Síríus og Marel.

Gunnar Ingimundarson framkvæmdastjóri segir þessa sölu til Kólumbíu mjög mikilvæga, verkefnið sé áhugavert og spennandi. Fall krónunnar spili líka stóran þátt í að gera hugbúnað þeirra samkeppnishæfan erlendis.

„Þetta er góð búbót í samdrættinum hér heima. Svona sala spyrst fljótt út. Þegar aðrir sjá svona stóran aðila kaupa slíkt kerfi þá hugsa menn sem svo að þeim sé líka óhætt að taka upp það sama."

Kolbeinn Reginsson og Vilma Kristín Guðjónsdóttir hafa stýrt þessu verkefni HugarAx við Kólumbíumenn. Segir Kolbeinn að þau hafi farið þangað fyrir stuttu til að setja upp kerfið hjá Navitrans í samstarfi við MDO.

„Þetta er langstærsta fyrirtækið sem við höfum komið að þótt við séum líka með viðskiptavini í Ástralíu, Bretlandi, á Flórída og víðar," segir Kolbeinn. Hann segir að uppsetningin í Kólumbíu nái yfir 21 vöruhús Navitrans víðsvegar um landið, auk stórrar dreifingarmiðstöðvar sem sér um þjónustu við hin vöruhúsin.

Opnar margar dyr

„Navitrans er bæði með sölu og þjónustu á vörubílum og vinnuvélum og mikið lagerhald á varahlutum og tækjum. Þetta opnar tvímælalaust fyrir okkur margar dyr því að markaðurinn þarna úti er gríðarlega stór en íbúar Kólumbíu eru 45 milljónir. Bara í þessari borg sem við vorum í búa fjórar milljónir, en þar er mikið iðnaðarsvæði með aragrúa vöruhúsa."

Kolbeinn segir að þótt mikil samkeppni sé í hönnun vöruhúsalausna sem byggðar eru utan um Dynamics AX hugbúnað þá hafi HugurAx sérstöðu á þessu sviði.

„Það sem við höfum umfram aðra sem byggja ofan á Dynamics AX er að við vinnum okkar lausnir beint inn í það forrit þar sem allar aðgerðir virka í rauntíma. Aðrir eru með utanáliggjandi hugbúnað þar sem biðtími við gagnaflutninga getur orðið langur á milli kerfanna. Í okkar lausn er engin töf á gagnaflæði og í því liggur okkar styrkur. Auk þess er mun ódýrara að viðhalda einu kerfi en tveimur," segir Kolbeinn.

Hjá HugAx starfa um 115 manns en höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Grafarholti í Reykjavík. Starfsstöðvar eru einnig á Akureyri, Egilsstöðum og í Vestmannaeyjum.