Skoski vogunarsjóðsstjórinn Hugh Hendry hefur lokað vogunarsjóðnum Eclectica Asset Management eftir fimmtán ára rekstur. Hendry er fjárfestingarstjóri sjóðsins og meðstofnand hans. Bloomberg greinir frá.

Helsti sjóður félagsins, Eclectica, lækkaði um 9,4% á fyrstu átta mánuðum ársins. Fjárfestar hafa tekið fé úr sjóðnum í stórum stíl undanfarin misseri. Sjóðurinn, sem var með nokkra milljarða Bandaríkjadala í stýringu, var með 30,6 milljónir dollara í stýringu í lok ágúst.

„Þetta átti ekki að enda svona,“ segir Hendry í bréfi til fjárfesta Eclectica. Hann segir að það hafi orðið ómögulegt að stýra litlum upphæðum vegna sterkrar skammtímafylgni Eclectica við umrótið í kringum Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, og óstöðugleika á Kóreuskaganum.

Hendry var einn þeirra erlendu fjármálamanna sem hagnaðist á veikingu íslensku krónunnar í hruninu, en hann var með umtalsverðar skortstöður í íslensku krónunni árið 2006. Það ár stærði hann sig af því að hann vildi láta minnast sín sem mannsins sem gerði Ísland gjaldþrota. Sjóður hans, Eclectica, fjárfesti þá í hlutabréfum og gjaldmiðlum, hvort heldur sem var með hefðbundnum langtímastöðum eða skortstöðum. Í fjármálakreppunni árið 2008 náði Hendry 31% ávöxtun á fjárfestingum sínum, sem voru aðallega skortstöður í bandarískum og evrópskum bönkum. Sjóðurinn hefur náð góðri árlegri ávöxtun undanfarin ár.

Fleiri þekktir vogunarssjóðsstjórar hafa lagt niður sjóði á árinu, til dæmis Eric Mindich, Leland Lim og John Burbank. Alls voru 259 sjóðir lagðir niður á fyrsta ársfjórðungi. Árið 2016 höfðu ekki eins margir vogunarsjóðir verið lokaðir síðan lausafjárkrísan reið yfir heimsbyggðina.