Uppsjávarskipið Huginn VE er nú við tilraunaveiðar á norrænni gulldeplu sem er af laxsíldarætt. Gulldepla er afar smár fiskur, 6-7 cm á lengd og eins og gefur að skilja hafa veiðar ekki gengið sérlega vel enda erfitt að ná fiskinum.  Áhöfnin á Hugin þarf þó ekki að leita langt yfir skammt því skipið er statt rétt suðvestur af Heimaey við veiðarnar.

Frá þessu er skýrt á vefnum sudurlandid.is. Þetta er annar túrinn sem farinn er í tilraunaskyni en eftir fyrri túrinn fengust 50 tonn af umræddum fiski og fór aflinn í bræðslu.  Samkvæmt þeim upplýsingum sem fengust um borð er búið að kasta einu sinni á torfuna í þessum túr en lítið fékkst úr því kasti.

Lítið er vitað um norræna gulldeplu hér við land en fiskurinn er svokallaður miðsjávarfiskur, sem heldur sig á 100 til 200 metra dýpi á nóttunni en 200 til 500 metra dýpi á daginn.  Fiskurinn finnst hringinn í kringum landið en ekki er vitað til þess að veiðar hafi verið reyndar áður á gulldeplunni.