Hugleikur Dagsson er hönnuðurinn á bak við fyrstu greiðslukort indó sparisjóðs. Fyrstu kortin eru þegar komin í notkun hjá hópi prófara.

Indó er nýr íslenskur sparisjóður, sem leggur áherslu á einfalda, gagnsæja bankaþjónustu og betri kjör en samkeppnisaðilar. Indó fékk starfsleyfi frá Seðlabanka Íslands þann 15. febrúar og er fyrsti “áskorenda bankinn” á íslenskum markaði sem mun opna dyr sínar fyrir almenningi síðar á árinu.

Fyrstu viðskiptavinir indó hafa tekið virkan þátt í uppbyggingu sparisjóðsins og fá þeir nú sérstaka útgáfu af greiðslukorti sem var framleitt í takmörkuðu upplagi og hannað af Hugleiki Dagssyni. Kortin eru þegar komin í notkun hjá fyrstu viðskiptavinum en áhugasamir geta skráð sig á biðlista á vefsíðu indó.

„Ég var viss um að enginn banki myndi samþykkja að hafa mynd á greiðslukorti af ríkum kalli að hegða sér eins og smábarn. En svo samþykkti indó það. Það fannst mér kúl af þeim," segir Hugleikur Dagsson.

„Það var virkilega skemmtilegt að fá Hugleik í lið með okkur við að hanna fyrsta kort indó, og útkoman er hreint út sagt frábær. Kortið er alls ekki eins og önnur greiðslukort, enda erum við ekki eins og aðrir bankar. Við erum mjög spennt að fjölga indó-um á næstu vikum og mánuðum og leyfa sem flestum að kynnast indó,“ segja Haukur Skúlason og Tryggvi Björn Davíðsson, stofnendur indó.