„Ég gæti alveg hugsað mér að vakna, fara á einhvern stað klukkan níu á morgnana og vera þar til klukkan fimm. Það væri frábært ef það væri einhver Hugleiksverksmiðja sem ég myndi mæta í. Ég gæti alveg hugsað mér að reyna að láta það gerast,“ segir teiknihöfundurinn og listamaðurinn Hugleikur Dagsson.

Hann var spurður að því í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins, hvernig það sé að vera listamaður og fá kannski eina ágætis útborgun og vita svo ekki hvenær og hve stór sú næsta verður.

„Það væri meira stressandi ef ég væri ekki alltaf að vinna í einhverju öðru samhliða. Þegar ég geri sjónvarpsþættina þá fæ ég borgað mánaðarlega. Ég er líka alltaf að selja listaverk í gegnum netgalleríið muses.is. Það eru stanslaus lítil verkefni hér og þar. Svo lengi sem ég held mér uppteknum þá fæ ég borgað. Eða með öðrum orðum, svo lengi sem ég er að vinna þá fá ég borgað,“ segir Hugleikur sem segist öfunda þá sem geta mætt á milli níu og fimm á skrifstofu í vinnu.

„Það er mjög óreglulegt hvernig ég vinn. Núna er ég að skrifa leikrit og þá finnst mér best að vinna og skrifa á morgnana. En stundum virkar heilinn þannig að mér finnst betra að skrifa á kvöldin og næturnar. En svo fer alltaf hluti af deginum í að svara tölvupóstum, sinna kynningarmálum og svo er ég með uppistand, sem er líka hluti af tekjunum. Þannig að það sem ég vinn við er að skrifa, teikna og koma fram. Það fer svo eftir eftirspurn og hvort einhver verkefni lenda hjá mér. Þetta er á yfirborðinu mjög kaótískt. Ég er aldrei búinn að vinna á einhverjum ákveðnum tíma,“ segir Hugleikur en nýliðið ár var það annasamasta hjá honum til þessa.

Ítarlegt viðtal við Hugleik má lesa í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins.