Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, lýsti þeirri skoðun sinni á fundi kjördæmisráðs flokksins í Suðvesturkjördæmi í vikunni að skynsamlegt gæti verið að stilla upp á framboðslistann.

Sú hugmynd hlaut þó ekki brautargengi á fundinum heldur var tillaga stjórnar kjördæmisráðsins um prófkjör samþykkt nánast samhljóða. Ríflega hundrað manns voru á fundinum.

Rökin fyrir uppstillingu voru m.a. þau að listinn fyrir síðustu kosningar væri sterkur og að þá hefði orðið mikil endurnýjun.

Stefán Pétursson, formaður stjórnar kjördæmisráðsins, segir að rök stjórnarinnar fyrir prófkjöri hafi fyrst og fremst verið þau að hinn almenni sjálfstæðismaður vildi hafa hönd í bagga með það hvernig listinn liti út. Þá sé krafa um að þeir sem séu á listanum endurnýi umboð sitt í prófkjöri.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins voru þreifingar um það milli efstu mann á listanum að honum yrði stillt upp í stað prófkjörs. Það náði þó ekki fram að ganga, eins og fyrr segir.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir leiddi listann fyrir síðustu kosningar og Bjarni Benediktsson var í öðru sæti. Nú er ljóst að þau sækjast bæði eftir fyrsta sætinu í prófkjöri.