„Fyrirtækið varð nú upphaflega til þegar ég og kollegi minn, Einar Mäntylä, vorum að koma heim úr námi. Hann var í Svíþjóð og ég í Kanada. Við vorum í plöntuerfðatækninámi, líklega einu Íslendingarnir í slíku námi.Við fórum að tala okkur saman um hvort við gætum ekki komið til Íslands og gert eitthvað sniðugt með þessa tækni. Niðurstaðan varð sú að skynsamlegast væri að fara út í það að þróa nýtt kerfi til að framleiða svona líftækniprótein í plöntum.“ Frá þessu segir Björn Lárus Örvar, framkvæmdastjóri og einn stofnenda ORF líftækni.

Starfsemin hófst á rannsóknarstofu hjá Landbúnaðarháskólanum. Björn segir hins vegar að fljótt hafi komið í ljós að verkefnið var allt of stórt fyrir það og því hafi verið ákveðið að stofna um það félag. Á þeim tímapunkti kom Júlíus Kristinsson í verkefnið og var einn stofnenda félagsins. Ári eftir stofnun, árið 2002, komu fyrstu fjárfestarnir inn í félagið og síðan þá hefur það vaxið smám saman.

Blaðamaður Viðskiptablaðsins heimsótti ORF Líftækni og fékk að kynnast fjölbreyttri starfsemi fyrirtækisins.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.