*

þriðjudagur, 3. ágúst 2021
Innlent 8. mars 2015 13:05

Hugmyndin kviknaði í borðtennis

Þrír 22 ára gamlir vinir, sem unnu saman hjá Nova, hafa stofnað ferðaþjónustufyrirtækið Inside Iceland.

Trausti Hafliðason
Arnar Már Eyfells, Einar Thor Ísfjörð, Styrmir Vilhjálmsson og Birgir Þór Björnsson.
Haraldur Guðjónsson

Mikill vöxtur er í ferðaþjónustu á Íslandi. Ferðamönnum fjölgar ár frá ári og fyrirtækjum í ferðaþjónustu sömuleiðis. Í síðustu viku stofnuðu þeir Styrmir Vilhjálmsson, Birgir Þór Björnsson og Arnar Már Eyfells, sem allir eru fæddir árið 1993 og því á 22 aldursári, saman fyrirtækið Inside Iceland ehf. Einar Thor Ísfjörð vinur þeirra félaga mun starfa með þeim í fyrirtækinu.

„Við munum sérhæfa okkur í einföldum og vönduðum ferðapökkum fyrir fólk á öllum aldri," segir Styrmir. Hann segir að ásamt því að þjónusta ferðamenn muni nýja fyrirtækið framleiða auglýsinga- og markaðsefni fyrir íslensk fyrirtæki þar sem ferðamenn eru markhópurinn.

Þremenningarnir kynntust í Nova, þar sem þeir unnu saman um tíma. „Eins klisjulegt og það hljómar þá vissum við strax að við værum að fara gera eitthvað stórt saman," segir Styrmir en hugmyndin að Inside Iceland kviknaði þegar þeir voru í pásu að spila borðtennis.

„Fæðingin tók sinn tíma, og reyndar allur undirbúningur við þróun hugmyndarinnar hefur verið tímafrekur. Þetta gekk vel og við unnum lengi við frekari þróun hugmyndarinnar. Auðvitað hafa verið hindranir á veginum en okkur hefur hingað til alltaf tekist að yfirstíga þær."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.