*

miðvikudagur, 8. desember 2021
Innlent 20. apríl 2019 19:01

Hugmyndin kviknaði í útkalli

Sprotafyrirtækið Feed the Viking framleiðir íslenskar þurrkaðar matarafurðir.

Sveinn Ólafur Melsted
Félagarnir Ari Karlsson og Friðrik Guðjónsson eru andlitin á bak við Feed the Viking
Haraldur Guðjónsson

Sprotafyrirtækið Feed the Viking framleiðir íslenskar þurrkaðar matarafurðir. Í nægu er að snúast hjá fyrirtækinu þessa dagana, en það er á meðal tíu teyma sem taka nú þátt í viðskiptahraðlinum Til sjávar og sveita. Friðrik Guðjónsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Feed the Viking, segir að hugmyndin á bak við fyrirtækið hafi kviknað fyrir um þremur árum.

„Ég er félagi í Hjálparsveit skáta í Garðabæ og hafði alltaf meðferðis bandarískt „beef jerky" í ferðir og útköll á vegum hjálparsveitarinnar, þar sem það fæst mjög góð og mikil orka úr því. Einn daginn var ég í útkalli þar sem við vorum að bjarga tveimur mönnum sem höfðu örmagnast uppi á heiði. Þegar við finnum þá byrjum við á að koma þeim í skjól og svo gef ég þeim þetta „beef jerky" sem ég hafði meðferðis. Eftir að hafa borðað það fengu þeir svo mikla orku að þeir stóðu upp og löbbuðu með okkur niður heiðina. Á þessu andartaki kviknaði á ljósaperu í höfðinu á mér og velti ég því fyrir mér hvers vegna það væri ekki til nein svona afurð frá Íslandi. Ég ákvað því að ráðast í það að koma innlendri þurrkaðri matarafurð á íslenskan markað."

„Ég var á þessum tíma að reka fyrirtæki sem heitir Prentagram og seldi það á mjög svipuðum tíma og þessi hugmynd varð til. Því ákvað ég að hella mér á fullum krafti út í þetta og fékk SkinneyÞinganes með mér í lið. Þeir hófu framleiðslu á harðfiski fyrir mig úr þorski sumarið 2017. Hann er mjög mildur og þægilegur en við bætum ekki neinu salti eða öðru slíku við hann. Þetta eru heil flök sem eru skorin í hæfilegan munnbita. Við ákváðum að kalla þessa afurð fish jerky," segir hann.

Slógu í gegn í Fríhöfninni

Eftir að þurrkaði fiskurinn var kominn í framleiðslu hóf Friðrik að þróa lamba „jerky" ásamt æskufélaga sínum, matreiðslumeistaranum Ara Karlssyni.

„Sumarið 2018 hófum við að framleiða lamba jerky í samstarfi við Norðlenska. Þetta sama sumar komust vörurnar í verslun Fríhafnarinnar í flugstöð Leifs Eiríkssonar og þeir hófu strax að panta það magn inn í hverri viku sem við framleiddum að jafnaði á tveimur mánuðum. Tengiliðurinn okkar þar segir að þetta sé einhver sterkasta byrjun hjá nýrri vöru í sögu verslunarinnar. Varan okkar er einnig fáanleg á þessum helstu ferðamannastöðum á Íslandi og núna í vetur fór varan okkar svo inn á Amazon. Auk þess eigum við í viðræðum við Krónuna og Icelandair um að varan fari í sölu hjá þeim. Núna í síðustu viku bættist svo þurrkað nautakjöt við vöruframboð okkar," segir Friðrik en að hans sögn eru þeir félagar mjög spenntir fyrir erlendu mörkuðunum. Þá séu pantanir þegar farnar að streyma inn í gegnum heimasíðu fyrirtækisins og Amazon, þó svo að varan hafi ekki enn verið auglýst.

Hann bendir jafnframt á að alþjóðleg reynsla Ara af matargerð hafi hjálpað til við að ná fram séríslenskum eiginleikum kjötsins, bragðið sé ekki yfirgnæfandi af kryddum og öðru, heldur fái kjötbragðið að skína í gegn. Þá séu umbúðirnar endurlokanlegar og því þægilegar á ferðalögum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: Feed Viking the