Hlutabréf hafa hækkaði bæði í Evrópu og Bandaríkjunum það sem af er degi eftir að Ben Bernanke, seðlabankastjóri Bandaríkjanna sagði við fjölmiðla í dag að ekki sé ólíklegt að stjórnvöld þar í landi myndu á næstunni kynna auka björgunarpakka eins og hann kallaði það.

Bernanke sagði að stjórnvöld gætu þurft að aðstoða einstaklinga og smærri fyrirtæki til að koma í veg fyrir frekari samdrátt í bandarísku efnahagslífi.

Dana Perino, talsmaður Hvíta hússins tók vel í hugmyndir Bernanke og sagði að ríkisstjórn Bush forseta væri opin fyrir slíkum aðgerðum.

Nú þegar markaðir á Wall Street hafa verið opnir í rúma klukkustund hefur Nasdaq vísitalan hækkað um 0,5%, Dow Jones um 2,1% og S&P 500 um 1,8%.

Í Evrópu hækkuðu markaðir strax við opnun í morgun og hækkun enn frekar eftir að tilkynnt var um hugmyndir Bernanke.

Þannig hefur FTSEurofirst 300 vísitalan hækkað um 3,1% það sem af er degi eftir að hafa einungis hækkað um 1,3% í morgun.

Í Lundúnum hefur FTSE 100 vísitalan hækkað um 3,7%, í Amsterdam hefur AEX vísitalan 5,8% og í Frankfurt hefur DAX vísitalan hækkað um 1,2%.

Í París hefur CAC 40 vísitalan hækkað um 2,9% og í Sviss hefur SMI vísitalan hækkað um 1,8%.

Í Kaupmannahöfn hefur OMXC vísitalan hækkað um 2,5%, í Stokkhólmi hefur OMXS vísitalan hækkað um 3,5% og í Osló hefur OBX vísitalan hækkað 7,3%.