Melkorka Sigríður Magnúsdóttir, verkefnastjóri Gulleggsins hjá Icelandic Startups, segir markmið keppninnar vera að hvetja ungt fólk til þátttöku í nýsköpun.

„Þetta er keppni í að gera viðskiptaáætlanir sérsmíðaðar fyrir ungt fólk sem er með hugmyndir að fyrirtækjum á byrjunarstigi. Þetta er tólfta keppnin og við sem að þessu stöndum erum ótrúlega stolt af því að kynjahlutföllin í ár eru loks akkúrat jöfn,“ segir Melkorka, sem stýrir Gullegginu nú í fyrsta sinn.

„Grunnhugmyndin er að gefa ungu fólki tæki og tól til að skilja að hugmyndir geta orðið að veruleika. Keppnin er eitt af elstu og rótgrónustu verkefnunum í frumkvöðlasenunni á Íslandi og stendur yfir í tvo mánuði, september og október ár hvert.“ Melkorka segir reynt að miða keppnina við að þátttakendur séu í námi eða vinnu.

„Enda vitum við að þessar hugmyndir eru oftast á algjöru forstigi þegar þær koma inn til okkar. Í raun erum við hætt að tala um að þetta sem umsókn heldur skráirðu þig í gulleggið og þá þarftu einungis að skrifa nokkrar línur um hugmyndina,“ segir Melkorka sem segir það opna þátttakendum aðgang að fyrsta áfanga keppninnar sem samanstendur af þremur vinnusmiðjur þrjá laugardaga út september.

„Þar eru mismunandi erindi frá ýmsum af samstarfsaðilum okkar og bakhjörlum og síðan vinnupásur inn á milli. Til dæmis kemur Marel og talar um vöruþróun og Einkaleyfisstofa um einkaleyfi og vörumerkjavernd. Advel talar um lögfræðiaðstoð og Nova um markaðssetningu. Það koma frumkvöðlar sem og starfsfólk frá þessum aðilum og setjast niður með hverju teymi og veita aðstoð og ráðgjöf. Nýjasti viðburðurinn er svo klúðurkvöld, sem heita „fuck up night“ á ensku, þar sem frumkvöðlar koma og tala um mistök sem þeir hafa gert á ferlinum, en allir eiga þeir einhverjar góðar klúðursögur,“ segir Melkorka.

„Við erum svo með 50 manna rýnihóp skipaðan af fólki alls staðar að úr atvinnulífinu, sem fer yfir áætlanirnar, gefur þeim einkunnir og umsagnir. Þarna eru í hópnum forstjórar sumra af stærstu fyrirtækjunum á Íslandi í dag sem gefa vinnu sína. Það er því mjög verðmætt fyrir teymin að fá umsagnir frá þessu reynslumikla fólki sem getur nýst í framtíðinni, þó hugmyndin komist ekki alla leið.“

Nú þegar búið er að velja hugmyndirnar tíu sem komast áfram hefst lokaáfangi keppninnar sem endar á því að sigurvegarinn er valinn 3. nóvember næstkomandi.

„Nú fara þessi tíu lið í aðra vinnusmiðju þar sem farið er meira í framkomu og þjálfun í því hvernig á að kynna hugmyndir. Þá er til dæmis farið í muninn á fjárfesta- og sölukynningum og svo farið í fyrirkomulag lokadagsins. Þar fá liðin sjö mínútur til kynningar fyrir dómnefnd sem er svo lokuð af og ákveður svo sigurvegara Gulleggsins. Hátíðinni lýkur með verðlaunaafhendingu seinna um daginn, en sigurvegarinn fær milljón króna verðlaunafé og svo eru fjölmargir aðrir vinningar.“