Ekki er tímabært að að ræða tímasetningar eða útfærslur á því hvernig reynt verður að samræma opinbera og almenna lífeyriskerfið, þ.m.t. samræmdan eftirlaunaaldur. Þetta segir Gunnar Björnsson, skrifstofustjóri í fjármálaráðuneytinu og formaður samninganefndar ríkisins sem er að skoða lífeyrissjóðakerfi landsmanna í samtali við Morgunblaðið í dag.

Hann segir vinnu nefndarinnar, sem í eiga sæti fulltrúar hins opinbera og almenna markaðarins, langt komna. Haldnir hafi verið 40 fundir og vænta megi tíðinda úr þeirri vinnu í haust, samhliða gerð kjarasamninga á haustmánuðum.

Í kvöldfréttum Sjónvarpsins í gær var haft eftir Árna Stefáni Jónssyni, varaformanni BSRB og stjórnarformanni LSD, að starfshópur um nýtt lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn væri við það að ná samkomulagi. Beðið væri eftir að samningar við ríkið um samræmingu launa og lausn á vanda Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR).