Þýski herrafatatískuframleiðandinn Hugo Boss býst við að áhrif kórónuveirufaraldursins á fyrirtækið muni versna enn um sinn áður en þau fari að batna á ný en sala félagsins dróst saman um 17% á fyrsta ársfjórðungi miðað við sama tíma fyrir ári.

Félagið sagði þó að það sæi sölutölurnar vera að skána á ný í Kína sem og á netinu en sala félagsins nam 555 milljónum evra á fyrstu þremur mánuðum ársins, sem er nokkru umfram væntingar greinenda um 548 milljóna evru sölu.

Félagið tapaði 14 milljónum evra fyrir fjármagnsliði og skatta á tímabilinu, en væntingar höfðu gert ráð fyrir 6 milljóna evru tapi. Heildartapið nam 18 milljónum evra, eða sem samsvarar tæplega 2,9 milljörðum íslenskra króna, en hagnaður félagsins fyrir ári síðan nam 37 milljónum evra.

Hugo Boss fyrirtækið býst við að sala á öðrum ársfjórðungi muni svo falla um að lágmarki helming, en það er þó bjartsýnt á að frá og með þriðja ársfjórðungi muni staðan batna á ný.

Verslanir fyrirtækisins í Kína opnuðu á ný í lok mars og salan í apríl var einungis 15 til 20% undir sölutölum í apríl fyrir ári síðan. Sala félagsins í gegnum netverslanir jókst hins vegar um 39% á ársfjórðungnum og hélt áfram að aukast í apríl, þar sem hún meira en tvöfaldaðist.

Félagið hyggst reyna að spara 150 milljónir evra með niðurskurði á árinu og draga úr birgðahaldi um andvirði 200 milljóna evra miðað við upphaflegar áætlanir. Mark Langer, forstjóri félagsins tilkynnti í mars að hann hyggðist stíga til hliðar í lok september en vera félaginu innan handar til ársloka meðan leitað er að arftaka.