Velta með skuldabréf nema það sem af er degi um 9 milljörðum króna sem er nokkuð meiri velta en verið hefur að meðaltali síðustu daga og vikur.

Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins útskýra kaup íslenska ríkisins á íslenskum og breskum skuldabréfum, sem áður voru í eigu Landsbankans, af Seðlabanka Lúxemborgar þá miklu veltu sem verið hefur í dag. Bréfin eru talin kosta um einn milljarð evra.

Eins og greint hefur verið frá eru samningar um kaupin á lokastigum . Vísir.is hefur eftir Gylfa Magnússyni, efnahags- og viðskiptaráðherra í dag að ríkisstjórnin hafi talið mikilvægt að fá ríkisskuldabréfin hingað til lands en í staðinn muni ríkið gefa út skuldabréf í evrum til Seðlabankans í Lúxemborg auk þess sem hugsanlega verði bréfin selt á markaði hérlendis.

„Við tökum þegar eftir viðbrögðum við þessum fréttum,“ segir Gísli Hauksson, framkvæmdastjóri GAM Management (GAMMA) í samtali við Viðskiptablaðið en skuldabréfa vísitala GAMMA hefur lækkað um tæp 0,5% það sem af er degi.

„Það má gera ráð fyrir að markaðsaðilar óttist aukið framboð á markaðinn af íbúðabréfum og ríkisbréfum í kjölfarið á þessum kaupum. Á móti kemur að útgáfa Íbúðalánasjóðs stefnir í að vera nettó neikvæð á næsta ári, þ.e. að afborganir Íbúðalánasjóðs af íbúðabréfum verða töluvert meiri en ný útgáfa eða um 30-40 milljarðar króna. Sú staðreynd ætti að vinna að einhverju leyti upp á móti auknu framboði bréfa ef ríkið ákveður að selja bréfin sem áður voru í eigu seðlabankans í Lúxemborg.“