Hugsanlega er að eiga sér stað viðhorfsbreyting hjá Seðlabankanum, þ.e. að háir stýrivextir þjóni í raun litlum tilgangi í núverandi ástandi.

Þetta segir Snorri Jakobsson, hagfræðingur hjá IFS Greiningu í samtali við Viðskiptablaðið en sem kunnugt er lækkaði Seðlabankinn stýrivexti sína í morgun um 250 punkta, úr 15,5% í 13% og í Peningamálum bankans voru boðaðar frekar lækkanir stýrivaxta í júní.

Snorri segir að sé þetta raunin á hann von á því að bankinn muni lækka stýrivexti hratt á næstu mánuðum.

Hann segir að í raun togast á tvö sjónarmið; annars vegar að háir vextir séu fyrst og fremst til þess fallnir að grafa undan gengi krónu með háum vaxtagreiðslum og hins vegar þau sjónarmið sem hafa komið áður fram hjá Seðlabanka að það ógni stöðugleika gengisins að vexti hratt og að núverandi gjaldeyrishöft eru tímabundin og ekki hægt að taka ákvörðun um stýrivexti nema í ljósi þess að gjaldeyrishöft verði afnumin.

„Mikil áhersla var lögð á seinna sjónarmiðið á fyrstu fundum um ákvörðun vaxta en nokkuð annar tónn virðist vera nú,“ segir Snorri.

„Einnig verðum við að hafa í huga að  Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn var búinn að gefa það út að hér á landi yrði að halda uppi ströngu peningalegu aðhaldi. Það felur það meðal annars í sér að halda raunvöxtum jákvæðum og samrýmist það seinna viðhorfinu.“