Viðskipti með bréf kínverska fasteignaþróunarfélagsins Evergrande voru stöðvuð í morgun vegna hugsanlegrar yfirtöku á fasteignarekstrarhluta þess.

Viðskipti með Evergrande Property Services Group – sem var skráð á markað í desember síðastliðnum og er með yfir 900 milljarða króna markaðsvirði – voru einnig stöðvuð vegna hugsanlegrar yfirtöku, en félagið gaf ekki upp hver hugsanlegur kaupandi væri.

Félagið er ein stærsta eign Evergrande samstæðunnar, sem reynir nú eftir bestu getu að selja eignir til að bæta fjárhagsstöðu sína eftir að hafa lent í vanskilum með erlendar skuldir sínar í síðasta mánuði.

Loks voru viðskipti með bréf fasteignaþróunarfélagsins Hopson Development stöðvuð á meðan beðið er tilkynningar um „umfangsmikil viðskipti félagsins“.

Talið er líklegt að félagið sé tilvonandi kaupandi ráðandi hlutar í fasteignarekstrarhluta Evergrande, en forsvarsmenn þess hafa ekki viljað tjá sig um málið.

Verð á skuldabréfum Hopson á gjalddaga árið 2023 féll um yfir 4% í kjölfarið og er nú 91% nafnvirðis. Ávaxtarkrafa bréfanna mun því hafa hækkað umtalsvert.