Sérfræðingar velta nú vöngum yfir hugsanlegri yfirtöku Old Mutual og hvort félagið muni reyna að yfirtaka Skandia að fullu eða að hluta. Líklegast þykir að Old Mutual bjóði 45 - 50 SEK pr. hlut í Skandia en komi til yfirtökunnar verður Old Mutual að fara í hlutafjárútboð til að fjármagna kaupin segir í Vegvísi Landsbankans á föstudaginn. Sömuleiðis velta sérfræðingar fyrir sér hvort formlegt tilboð frá Old Mutual í Skandia geti sett af stað baráttu um félagið, því vitað er að Kaupþing banki, Burðarás, Cevian Capital (sænskur áhættusjóður) og bandarískur fjárfestir að nafni Carl Icahn hafi verið að kaupa hluti í Skandia og gætu hugsanlega viljað bjóða á móti Old Mutual.

Old Mutual, sem er breskt tryggingar-félag með um þrjá fjórðu hagnaðar af starfsemi sinni í Suður-Afríku, á í viðræðum við Skandia, sem er sænskt tryggingafélag, um yfirtöku á því síðarnefnda. Markaðsverðmæti Old Mutual er talið vera í kringum 5 ma.punda (625 ma.kr.) en markaðsvirði Skandia um 5 ma.USD (300 ma.kr.).

Haft er eftir stjórnendum Old Mutual að viðræðurnar séu á algeru frumstigi og óvíst hvort að yfirtökunni verði. Við fréttina í gær lækkuðu bréf Old Mutual. Bréf Skandia hafa hins vegar hækkað frá birtingu fréttarinnar.

Leita að heppilegum fjárfestingakosti

"Old Mutual hefur verið að leita að heppilegum fjárfestingakosti til að draga úr vægi starfsemi þeirra í Suður-Afríku. Þeir telja Skandia heppilegan fjárfestingakost, einkum breska hluta félagsins, en um helmingur tekna félagsins á fyrsta fjórðungi (óendurskoðað uppgjör) er að myndast í Bretlandi. Old Mutual er vel kunnugt breska markaðinum og gæti nýtt þekkingu sína til að ná enn frekar til viðskiptamanna og bjóða þeim að fjárfesta í afurðum Skandia. Markaðsverð Skandia hefur lækkað um 83% frá því sem hæst var, 29 ma.USD í júní 2000, eftir að sala félagsins á skuldabréfum tengdum tækni- og fjarskiptafyrirtækum kolféll með hruni bandaríska markaðarins árið 2000," segir í Végvísi Landsbankans.

Íslendingar hagnast við fréttina

Í kynningu með ársfjórðungsuppgjöri Burðaráss kom fram að eignarhlutur félagsins væri 1,4% af heildarhlutafé Skandia, auk kaupréttar á 2% í félaginu til viðbótar.

Í Hálffimm fréttum Kaupþings banka er bent á að eignarhlutur Burðaráss í Skandia var bókfærður á 4.391 m.kr. við lok síðasta árfjórðungs. Bréf Skandia hafa hækkað um 16,7% í sænskum krónum talið frá lokum síðasta fjórðungs en 24,5% í íslenskum krónum talið. Burðarás hefur ekki þá stefnu að gengisverja erlendar fjárfestingar sínar.

"Miðað við hækkunina í íslenskum krónum á eignarhlut Burðaráss má gera ráð fyrir að gengishagnaður Burðaráss sé 1.075 m.kr. Ekki liggur fyrir á hvaða verði Burðaráss getur nýtt kauprétti sína í Skandia, en ef við gefum okkur að þeir hafi verið á sama gengi og markaðsverð bréfa félagsins við lok fjórðungsins, má áætla að hagnaður Burðaráss af þeim sé um 1.600 m.kr. Hafa verður þó í huga að hugsanlegt verð sem Burðarás getur nýtt kauprétti sína sé hærra og hagnaðurinn þar af leiðandi minni og svo er auðvitað líka hugsanlegt Burðarás hafi aukið við hlut sinn í Skandia frá því að uppgjörið var birt," segir í Hálffimm fréttum Kaupþings banka.

Byggt á Vegvísi Landsbankans og Hálffimm fréttum Kaupþings banka.