Nýr forstjóri hefur tekið við bandarísku verslunarkeðjunni Pier 1, sem fjárfestingafélag Jákups Jacobsen á 10% hlut í. Ráðningin hefur hrint af stað orðrómi um að hætt hafi verið við að selja fyrirtækið, en stjórn Pier 1 fékk fjárfestingabankann JP Morgan til að finna hugsanlega kaupendur af fyrirtækinu.

Jákup hefur lengi verið orðaður við verslunarkeðjuna, en fyrirtæki í hans eigu keypti starfsemi Pier 1 í Bretlandi og á Írlandi fyrir 15 milljónir Bandaríkjadala í fyrra. Jákup fékk einnig aðgang að bókum Pier 1 í Bandaríkjunum en kauptilboð hefur ekki birst enn.

Í tilkynningu frá Pier 1 segir að Alexander W. Smith muni taka við forstjóra starfinu af Mavin G. Giroud, sem mun hætta hjá fyrirtækinu í næsta mánuði. Smith hefur töluverða reynslu af smásölu geiranum í Bandaríkjunum, Bretlandi og Hong Kong.

Pier 1 mun greiða Smith eina milljón í árslaun, en auk þess er lagt til að hann fái afkomutengdar greiðslur á bilinu 500-750 þúsund dalir.

Í greiningu frá fjárfestingabankanum Goldman Sachs segir að afkomutengdar greiðslur til nýja forstjórans gefi til kynna að mikil áhersla sé lögð á að snúa við rekstri félagsins, sem hefur verið að tapa markaðshlutdeild jafnt og þétt síðustu ár.