Fulltrúar 26 landa hafa andmælt nýjum kolefnisskatti Evrópusambandsins á flugvélar og hittast nú í Moskvu til að íhuga mögulegar aðgerðir. Kína, Indland, Rússland og Bandaríkin eru meðal þeirra landa sem andmæla gjaldtökunni sem tekin var upp á Nýársdag. Þetta kemur fram á vef breska ríkisútvarpsins, BBC.

Gagnrýnisraddir segja Evrópusambandið ekki hafa rétt til að leggja skatta á flug til eða frá áfangastöðum utan Evrópu en Evrópudómstóllinn úrskurðaði skattlagninguna hins vegar löglega í desember síðastliðnum.

Með skattlagningunni eru gefin leyfi fyrir kolefnisútblæstri en þau flugfélög sem fara yfir leyfilegt magn þurfa að kaupa viðbótarleyfi og á þetta að skapa hvata fyrir flugfélögin til að draga úr mengun. Verð á viðbótarleyfum mun fara hækkandi með tímanum og verður leyfilegt losunarmagn jafnframt smám saman minnkað.