Hugsanlegt er að opinberir aðilar grípi til fyrirframgreiðslna vegna tilboðsverkefna í vanda verktaka við að fjármagna nauðsynlegan tækjabúnað. Dæmi eru um að slíku fyrirkomulagi hafi áður verið beitt til að auðvelda verktökum aðkomu að einstökum verkefnum.

Fregnir í vikunni af vanda verktaka við að endurnýja sinn tækjabúnað vegna þrenginga á lánamarkaði, hafa vakið upp ýmsar spurningar. Staðan er einkennileg í ljósi þess að verkefnaframboð er gríðarlega mikið.

Júlíus S. Ólafsson, forstjóri Ríkiskaupa, segir að venjan sé sú að verktakar sem samið sé við eftir útboð fái áfangagreiðslur eftirá miðað við framvindu verka. Það þýðir að þegar verktakar hefja framkvæmdir verða þeir sjálfir að vera búnir að fjármagna þau tæki og tól sem til þarf að vinna viðkomandi verk.

„Þá hafa heldur ekki verið bættar verðlagsbreytingar á vinnslutíma og annað slíkt. Eftir að gengið fór eins og það fór og verðbólgan að aukast, virðast vera að koma upp alveg nýjar hliðar á þessum málum."

Júlíus segir að það komi þó vel til greina að skoða fyrirframgreiðslur, eins og dæmi séu til um. „Það er ekkert óhugsandi í þessum heimi. Ef menn ætla að fá einhvern til að vinna fyrir sig þá verður að gera það þannig að viðkomandi vilji og geti gert það. Í gamladaga voru dæmi um fyrirframgreiðslur. Við notuðum það form líka varðandi GSM útboðin tvö sem fram fóru í fyrra. Þá var borgað fyrirfram og síðan yfirfarið eftir hvern áfanga.

Við höfum síðan verið að opna útboð eins og vegna stækkunar Akureyrarflugvallar. Þar stefnir í að það verði öflugir verktakar sem fái það verk svo líklega reynir ekki á þetta þar," segir Júlíus S. Ólafsson.