Breska dagblaðið The Daily Telegraph leiðir að því líkum að Fjármálaeftirlitið á Íslandi muni koma í veg fyrir að kaup Kaupþings á hollenska bankanum NIBC gangi í gegn. Kaupþing keypti í raun NIBC af fjárfestum undir forystu J.C. Flowers um miðjan ágúst í fyrra fyrir þrjá milljarða evra, . Kaupin eru þó ekki endanlega frágengin og telur The Daily Telegraph sig hafa heimildir fyrir því að Fjármálaeftirlitið gæti fyrirskipað Kaupþingi að hætta við yfirtökuna á hollenska bankanum.

Blaðið segir að verði þetta raunin muni það auka enn frekar áhyggjur markaðarins af stöðu íslensku bankanna. Yfirtaka Kaupþings á NIBC átti að ganga í gegn í lok síðasta árs en beðið er eftir samþykki Fjármálaeftirlitsins. The Daily Telegraph hefur það eftir ónefndum íslenskum bankamanni að þungu fargi verði létt af stjórnendum Kaupþings ef Fjármálaeftirlitið setur sig upp á móti kaupunum.

Það vakti mikla athygli síðastliðið sumar þegar Kaupþing kynnti yfirtökuna á NIBC. Samningurinn var gerður aðeins einni viku eftir að NIBC varð einn af fyrstu bönkunum í heimi til að tapa stórum fjárhæðum vegna fasteignalánakrísunnar í Bandaríkjunum. Alls nam tap NIBC 137 milljónum evra.

Samkvæmt upplýsingum frá Fjármálaeftirlitinu er málið enn þar til skoðunar. Engar upplýsingar fengust um hvenær niðurstöðu væri að vænta.