Það hefur ekki farið fram hjá neinum að Straumur-Burðarás Fjárfestingabanki hf. tók þá ákvörðun fyrir skömmu að færa bókhald og reikninga bankans í evrum. Í viðtali við Friðrik Jóhannsson, forstjóra Straums Burðaráss, í Viðskiptablaðinu í dag kemur fram að þessi ákvörðun á sér töluverðan aðdraganda og markast fyrst og fremst af þeim veruleika sem bankinn býr nú við.

Hann tekur fram að menn megi ekki fara fram úr sér við að lesa í mikilvægi ákvörðunarinnar fyrir íslenskt hagkerfi, hún hafi eingöngu verið tekin með langtíma hagsmuni bankans og hluthafa hans í huga.

Friðrik bendir á að bankinn hafi um langt skeið verið með stöðutöku í erlendum gjaldeyri, sem nemur um það bil 30% af eigin fé.

"Það jafngildir því að vera með hluta af eigin fé í erlendum gjaldmiðli. Því til viðbótar höfðum við fengið heimild frá Seðlabankanum til þess að vera með sérstakan jákvæðan gjaldeyrisreikning til varnar gengisáhrifum á eiginfjárhlutfall.

Án þess að ég vilji fara út í stærðina á þeirri heimild, þá var hér um að ræða verulega viðbót og við nýttum það að fullu. Því vorum við komin með töluvert stóran hlut af eigin fé okkar í evrum áður en þessi ákvörðun var tekin. Það er því ekki um neina stökkbreytingu að ræða nú því þetta hefur verið að stigbreytast fram til þessa."

Sú ákvörðun, að fara með bókhald og reikningsskil bankans yfir í evrur, markast af þeim veruleika að félagið er nú með meira en helming tekna sinna í erlendum myntum og meira en helming eigna. "Þetta er stöðugt vaxandi þáttur hjá okkur og því töldum við að að sú ákvörðun að færa þetta yfir í evrur gæfi gleggri mynd af rekstri og stöðu bankans. Um leið dregur þetta úr sveiflum í afkomu og eykur gagnsæi.

Á sama tíma verður bankinn aðgengilegri fyrir erlenda aðila og það eykur möguleika okkar erlendis. Þetta er ákvörðun sem er tekin með langtíma hagsmuni hluthafa bankans í huga. Það eru því engin skammtíma sjónarmið í þessu, við erum fyrst og fremst að horfa til lengri tíma. Það er ekki ólíklegt að á næstu þremur árum vaxi þessi hlutföll þannig að við verðum með 80% eða þar yfir af viðskiptum okkar erlendis."

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.