Fjárfestingabankinn Lehman Brothers er sagður áforma að fækka störfum um 1200. Munu þær aðgerðir vera liður í umfangsmiklum niðurskurði til þess að draga úr kostnaði sem hefur aukist verulega að undanförnu.

Ef af áformum bankans verður munu þau koma niður á um það bil fimm prósent starfsmanna bankans en Lehman Brothers er fjórði stærsti fjárfestingabanki Bandaríkjanna.

Frá þessu er greint á vef Reuters fréttaveitunnar.

Bankinn hefur nú þegar tilkynnt að hann muni fækka um 4000 stöðugildi á þessu ári. Staðfestar tölur um fjölda uppsagna er þó á reiki þar sem stjórnendur bankans neita að tjá sig um málið.

Lehman Brothers hefur átt í talsverðum erfiðleikum að undanförnu líkt og fleiri fjármálafyrirtæki. Fjárfestar óttast að afskriftir lána bankans munu verða til þess að draga úr bókfærðu virði bankans sem stóð í u.þ.b. 26,3 milljörðum Bandaríkjadala í lok maí.

Búast má við því að Lehman Brothers tilkynni á næstu tíu dögum um aðgerðir til þess að auka starfsfé bankans, draga úr kostnaði og fækka lélegum eignum. Á vef Reuters segir að ef bankinn hefji ekki slíkar aðgerðir gæti hætta á óvinveittri yfirtöku aukist.